mánudagur, maí 16

BÍ styrkir Sigurvon
bb.is | 16.05.2011 | 14:56

Landsbankinn styrkir BÍ

Landsbankinn og Boltafélag Ísafjarðar hafa undirritað styrktarsamning til tveggja ára sem skiptist á milli yngri flokka félagsins og meistaraflokks. Landsbankinn mun þó í samræmi við stefnu sína afsala sér auglýsingum á búningum BÍ. Í stað þess valdi BÍ að merki Krabbameinsfélagsins Sigurvonar myndi prýða búninga félagsins næstu ár. Landsbankinn kynnti síðastliðið haust nýja stefnu í stuðningi bankans við íþróttafélög undir yfirskriftinni Samfélag í nýjan búning. Markmiðið er að tengja saman stuðning bankans við íþróttir og mannúðarmál. 

Stofnaður verður áheitasjóður fyrir Sigurvon í útibúi Landsbankans á Ísafirði og mun bankinn greiða í sjóðinn ákveðna upphæð fyrir hvern sigur meistaraflokka BÍ/Bolungavíkur á Íslandsmótum. Það er því vonandi að sigrarnir verði margir þetta árið þar sem það kemur fleiri aðilum en Boltafélaginu til góða. Landsbankinn mun að auki í tilefni af stofnun áheitasjóðsins styrkja Sigurvon með styrk að upphæð 500.000 krónur. 

„Stjórn BÍ88 þakkar Landsbankanum kærlega fyrir styrkinn enda skýtur hann styrkari stoðum undir starf félagsins í baráttunni í öllum deildum og öllum flokkum. Það er líka afar ánægjulegt að nú skuli fleiri njóta góðs af fótboltanum en bara þeir sem hafa áhuga á honum,“ segir í tilkynningu. 

Áður en fyrsti leikur BÍ/Bolungarvíkur hófst í 1. deild á laugardag afhenti fulltrúi Landsbankans BÍ-mönnum ávísun upp á 500.000 krónur sem þeir afhentu formanni Krabbameinsfélagsins Sigurvonar.