miðvikudagur, febrúar 15

Stórtónleikar Sigurvonar

Góðgerðartónleikar til styrktar krabbameinsfélaginu Sigurvon verða haldnir í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði 25. ágúst. Á tónleikunum koma fram Á móti sól, Birgitta Haukdal, Nylon, Hildur Vala Einarsdóttir, Sign, Davíð Smári Harðarson, Nine elevens, Apollo og Húsið á sléttunni. Ég held að þetta séu bara einir stærstu tónleikar sem haldnir hafa verið á Vestfjörðum. Það góða við þessa tónleika er að allir sem að koma að þeim eru að gefa vinnu sína, ég reiknaði það út að ef svo væri ekki þá myndu þeir kosta á aðra milljón, segir Gunnar Atli Gunnarsson, skipuleggjandi tónleikanna. Kynnar verða Sverrir Þór Sverrisson og Auðunn Blöndal sem betur eru þekktir sem Sveppi og Auddi úr Strákunum á Stöð 2. Tónleikarnir byrja kl. 19:30 og standa til kl. 22. Um er að ræða fjölskyldutónleika og áfengi eða önnur vímuefni eru með öllu bönnuð. Á tónleikunum verður prufað nýtt ljósakerfi sem Stöð 2 er að lána okkur, það er eitt það stærsta á Íslandi þannig að tónleikagestir ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum, segir Gunnar Atli.

Auk þess sem allir sem koma fram á tónleikunum gefa vinnu sína leggja ýmsir aðrir hönd á plóg. Það gekk mjög vel að fá styrktaraðila í lið með mér, Íslandsbanki, Flugfélag Íslands, Office 1, Hraðfrystihúsið Gunnvör, Sparisjóður Vestfirðinga og Vífilfell hafa verið sérstaklega rausnarleg í því sambandi. Ég fékk góðan afslátt á íþróttarhúsinu og hafa samskipti mín við Skúla Ólafsson á Skóla- og fjölskylduskrifstofu og Halldór Halldórsson bæjarstjóra verið með eindæmum góð og hafa þeir hjálpað mér mikið, segir Gunnar Atli.

Forsala aðgöngumiða hefst í Íslandsbanka á miðvikudag og er takmarkað upplag af miðum. Miðaverð er 1.500 krónur.

BÆJARINS BESTA, 15. ÁGÚST 2005