mánudagur, mars 15

Frábærir tónleikar Fjallabræðra

Tekið af vef bb.is
„Tónleikarnir voru frábærir, það var mikið fjör og mikið gaman,“ segir Sigurður Ólafsson, formaður Krabbameinsfélagsins Sigurvonar á norðanverðum Vestfjörðum um styrktartónleika vestfirska karlakórsins Fjallabræðra sem fóru fram í íþróttahúsinu á Flateyri á laugardag. Sigurður segist telja að hátt í 300 manns hafi sótt tónleikana. „Við erum ekki búin að taka það nákvæmlega saman en ég held að það hafi verið eitthvað á bilinu 250 til 300 manns í húsinu.“ Ágóði tónleikanna rann til styrktar Sigurvonar og segir Sigurður að slíkur stuðningur sé ómetanlegur. „Það gefur þessu mikið gildi og það ber að þakka þeim Fjallabræðrum ærlega fyrir og eins eiga skilið þakklæti allir þeir sem komu að tónleikunum, en fullt af fyrirtækjum lögðu hönd á plóg.“ Sigurður segir mikla stemmningu hafa verið í húsinu. „Ég hef ekki heyrt annað en að fólk hafi skemmt sér vel. Kórfélagarnir voru allavega mjög ánægðir og skemmtu sér vel uppi á sviðinu.“ Athygli vakti að fiðluleikari kórsins og eina konan, Unnur Birna Björnsdóttir, var fjarverandi og í hennar stað hafði verið stillt upp á sviðinu pappamynd af henni í fullri stærð. „Hún veiktist og komst ekki og því ákváðu þeir að skella upp mynd af henni til að hafa ásýnd hennar hjá sér á sviðinu. Magnús Þór Sigmundsson var einnig fjarverandi, þó að hann hefði gjarnan viljað koma, en hann hafði lofað fyrir löngu að syngja fyrir íþróttafélag í Hveragerði sem hann var í þegar hann var lítill gutti,“ segir Sigurður. thelma@bb.is