miðvikudagur, febrúar 15

Stórtónleikar til styrktar Sigurvon í ágúst 2004

Stúlknasveitin Nylon, Idol stjarnan Kalli Bjarni og unglingabandið Búdrýgindi eru meðal þeirra tónlistarmanna sem fram koma á góðgerðatónleikum sem haldnir verða í Grunnskólanum á Ísafirði laugardaginn 11. september. Tónleikarnir eru haldnir til styrktar krabbameinsfélaginu Sigurvon. Grínararnir landsþekktu, Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr, verða kynnar á tónleikunum sem eru skipulagðir af hinum 15 ára gamla athafnamanni Gunnari Atla Gunnarssyni sem í sumar starfaði sem aðstoðarmaður Einars Bárðarsonar, eiganda tónleikafyrirtækisins Concert.

Alls verða níu atriði í boði, en auk þeirra tónlistarmanna sem taldir hafa verið upp munu leika á tónleikunum sveitirnar Amos, Apollo, Spastízkur Raunveruleiki, Spittaz De Oro, Svitabandið og The 9/11.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20 að kvöldi og kostar 1.000 krónur inn. Forsala aðgöngumiða hefst í Frummynd á Ísafirði 6. september. Tónleikarnir eru öllum opnir, það er að segja ekkert aldurstakmark og eru allir hvattir til að koma og sjá margar af stærstu hljómsveitum Íslands og í leiðinni að styrkja gott málefni, segir Gunnar Atli Gunnarsson, skipuleggjandi tónleikanna.

BÆJARINS BESTA (bb.is), 30. ÁGÚST 2004.