miðvikudagur, október 4

Orlofsdvöl á aðventu !!

Föndrað að LöngumýriFræðslusetur kirkjunnar á Löngumýri hóf í samstarfi við Krabbameinsfélag Skagafjarðar og stuðningshópinn Dug að bjóða fólki sem greinst hefur með krabbamein og er á milli meðferða eða í uppbyggingarferli til hvíldardvalar hér fyrir norðan. Fyrsta skrefið var stigið í fyrra og eftir velheppnaðar dvalir krabbameinssjúklinga (og í mörgum tilvikum maka þeirra eða aðstandenda) í sumar, þá er ljóst að þörfin fyrir hvíldardvöl af þessum toga er til staðar og ugglaust ekki síður yfir vetrarmánuðina. Því langar okkur hér á Löngumýri að bjóða uppá helgardvöl fyrir þennan hóp nú í byrjun aðventu þ.e. langa helgi frá 30.nóv-3.des.

Hugmyndin er sú að þessa daga geti fólk notið aðdraganda jólanna, skrifað á jólakortin auk þess sem boðið er upp á jólaföndur og kennslu í því þar sem hægt væri að gera ódýrar og persónulegar jólagjafir. Jóla og aðventutónlist fengi að njóta sín og meðal annars kæmi kirkjukórinn og syngi fyrir fólkið auk hefðbundinnar helgistundar. Annars væri hvíldin og endurnæringin í forgrunni ásamt góðum mat og næði til íhugunar, því mikill áhugi er á að hafa hluta af tímanum t.d. frá kvöldmat að hádegi daginn eftir sem "kyrrðarstund", en hópurinn sem var í sumar tók vel í slíkar hugmyndir.

Fyrir þá sem setja akstur út á land að vetri fyrir sig þá gengur áætlun Hópferðamiðstöðvarinnar alla daga og ekur fólki hingað heim í hlað fyrir eitt orð.

Kostnaðurinn er auðvitað alltaf það sem spurt er um og mun Krabbameinsfélagið Sigurvon á Ísafirði bjóða 5 aðilum frítt fæði og uppihald, eina sem fólk þarf er að koma sér á staðinn !!
Pláss er fyrir allt að 30 manns í 17 herbergjum. Heitir pottar, kapella, hlýleg setustofa og rúmgóður matsalur.

Æskilegt er að umsóknir berist fyrir 1. nóvmeber 2006. Hægt er að hringja í síma 456-5650 eða senda tölvupóst á sigurvon@krabb.is