þriðjudagur, mars 23

Ríkisstjórnin bannar notkun ljósabekkja !

Þessa frétt mátti lesa í DV í dag og er þetta ánægjulegt skref í baráttunni við húðkrabbamein !
-----------------------------
Þriðjudagur 23. mars 2010 kl 15:21
Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

Ríkisstjórn samþykkti í dag tillögu Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra um bann við ljósabekkjanotkun einstaklinga undir 18 ára aldri. Verður frumvarpið lagt fyrir Alþingi eftir kynningu í þingflokkum. Með samþykkt frumvarpsins yrði Ísland eftir því sem næst verður komist fyrst Norðurlandanna til að innleiða slíkar reglur. Í Finnlandi er ráðgert að leggja sambærilegt frumvarp fram á haustþingi.
Undanfarin sjö ár hafa fagaðilar staðið fyrir fræðsluherferð þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Hefur herferðin beinst að fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra og hefur dregið verulega úr ljósabekkjanotkun ungs fólks síðan herferðin hófst. Í viðhorfskönnun, sem Capacent-Gallup gerði fyrir Lýðheilsustöð í desember 2009, sögðust rúm 72 prósent aðspurðra vera fylgjandi lagasetningu um bann 18 ára og yngri við notkun á ljósabekkjum.
Tillagan nýtur eindregins stuðnings starfshóps um útfjólubláa geislun, sem auk fulltrúa Geislavarna ríkisins er skipaður fulltrúa Krabbameinsfélagsins, landlæknis, Lýðheilsustöðvar og Félags húðlækna.