fimmtudagur, mars 7

Mottumars 2013 - Verðlaun í boði !

Mottumars er árlegt árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands sem snýr að baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Á Íslandi greinast meira en sjöhundruð karlar ár hvert með krabbamein. Rannsóknir sýna að með forvörnum og heilbrigðu líferni er hægt að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur tilfellum. Í ár stendur Mottumars frá 1. til 21. mars. Á þeim tíma eru karlmenn hvattir til að sýna samstöðu og safna yfirvaraskeggi til að vekja athygli á málefninu.

Karlmenn eru jafnframt hvattir til að safna áheitum og skrá sig til leiks á vefsíðunni www.mottumars.is . Einstaklingar og lið geta skráð sig út frá búsetu og keppt þannig fyrir hönd síns byggðarlags. Þeir fjármunir sem safnast með átakinu gera Krabbameinsfélaginu kleift að sinna áfram forvörnum, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknum á krabbameinum karla.

 Krabbameinsfélagið Sigurvon hvetur vestfirska karlmenn til að leggja rakvélina til hliðar í marsmánuði og leggja þessu mikilvæga málefni lið með sýnilegum hætti. Jafnframt er mikilvægt að karlmenn ígrundi þann boðskap sem liggur að baki átakinu. Að þeir hugi að þeim áhrifum og ábyrgð sem þeir geta haft á eigin heilbrigði og vellíðan með heilsusamlegum lífsháttum, ásamt því að sýna árvekni gagnvart mögulegum einkennum sem geta fylgt krabbameinum og fari í reglulegar heilsufarsskoðanir hjá sínum heimilislækni.

 Allar nánari upplýsingar sem tengjast átakinu, einkennum krabbameina hjá körlum og forvörnum má finna á heimasíðunni www.mottumars.is Á meðan átakinu stendur mun bb.is í samvinnu við Krabbameinsfélagið Sigurvon flytja fréttir og birta myndir af gangi mála hjá vestfirskum mottumönnum. Eru gjörfulegir skeggsafnarar á svæðinu hér með beðnir um að senda okkur línu á netfangið sigurvon@snerpa.is .

Að átakinu loknu mun Sigurvon veita nokkrum glæsimönnum vegleg verðlaun.


 Fyrir hönd Krabbameinsfélagsins Sigurvonar Sigríður Ragna Jóhannsdóttir starfsmaður