miðvikudagur, febrúar 15

Framtakið skiptir félagið miklu máli

Tónleikar til styrktar Krabbameinsfélaginu Sigurvon á norðanverðum Vestfjörðum voru haldnir í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum blaðsins sóttu um 400 manns tónleikana sem haldnir voru að frumkvæði Gunnars Atla Gunnarssonar á Ísafirði. Á tónleikunum komu fram Á móti sól, Birgitta Haukdal, Nylon, Hildur Vala Einarsdóttir, Sign, Davíð Smári Harðarson, Nine elevens, Apollo og Húsið á sléttunni. Kynnir var leikarinn Steinn Ármann Magnússon. Tónleikarnir þóttu heppnast vel fyrir utan rúmrar hálftíma langrar tafar sem varð vegna bilunar í flugvélar sem flutti stjörnurnar frá Reykjavík.

Framtak af þessu tagi skiptir félagið gríðarlega miklu máli og sýnir hve hugur þeirra sem að tónleikunum stóðu til félagsins er jákvæður og frábær í alla staði. Ég vil ítreka þakklæti fyrir hönd Sigurvonar til allra sem komu að tónleikunum en svona verður seint fullþakkað, segir Sigurður Ólafsson, formaður krabbameinsfélagsins Sigurvonar.

Allir sem komu fram á tónleikunum gáfu vinnu sína en auk þess lögðu ýmsir aðrir hönd á plóg. Meðal styrktaraðila voru Íslandsbanki, Flugfélag Íslands, Office 1, Hraðfrystihúsið Gunnvör, Sparisjóður Vestfirðinga og Vífilfell. Þá leigði Ísafjarðarbær íþróttahúsið á 60 þúsund krónur í stað rúmlega 178 þúsund.

BÆJARINS BESTA, 26. ÁGÚST 2005.