miðvikudagur, október 11

Kirkjur víða bleikar !

Kirkjan á Flateyri í bleiku ljósiÍ tilefni þess að október mánuður verður helgaður baráttu gegn brjóstakrabbameini verða ýmsar byggingar lýstar upp með bleiku ljósi um allan heim. Á Vestfjörðum verða Hótel Ísafjörður og hluti gamla kaupfélagshússins lýstur upp, á Hólmavík, Bolungarvík, Suðureyri, Þingeyri og Flateyri verða kirkjur staðanna baðaðar bleiku ljósi. Þetta er sjöunda árið í röð, sem þessu alþjóðlega árveknisátaki er hrint af stað, að frumkvæði Estée Lauder, og er bleik slaufa tákn átaksins. Konur eru þá fræddar um brjóstakrabbamein og hvattar til að nýta sér boð Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku. Bleiku slaufurnar má nálgast í rúmlega þrjátíu verslunum hér á landi sem selja vörur frá Estée Lauder, þar á meðal er Silfurtorg á Ísafirði. Þær fást einnig á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði og í Ísafjarðarapóteki. Öllum ágóða af sölunni verður varið til verkefna sem valin verða í samráði við Krabbameinsfélagið og Samhjálp kvenna, sem eru samtök kvenna sem greinst hafa með krabbamein í brjóstum.