miðvikudagur, október 28

Bangsar styrkja Krabbameinsfélagið !

Frá fimmtudegi til sunnudags stendur Friendtex fyrir landssölu á böngsum til styrktar leitarstarfi hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Fyrirtækið tekur nú þátt í baráttunni gegn krabbameini sjöunda árið í röð.

"Núna er fjögurra daga söluátak á Friendtex böngsunum og rennur allur ágóði af sölu þeirra óskiptur til Krabbameinsfélagsins," segir Ása Björk Sigurðardóttir, eigandi Friendtex á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfa 28 sjálfstætt starfandi sölufulltrúar sem staðsettir eru víðsvegar um land - allt frá Reykjavík til Vopnafjarðar. Þeir munu annast söluna ásamt öðrum velunnurum Krabbameinsfélagsins.

"Sölufulltrúar okkar verða áberandi um allt land og hafa fundið fyrir mikilli velvild og jákvæðni í garð verkefnisins. Á Höfn í Hornafirði ætla nokkrar konur til að mynda að ganga hús úr húsi og selja bangsana, svo það er ljóst að það er mikil stemming fyrir þessu átaki," segir Ása Björk. Friendtex sér um sölu á tískufatnaði í heimakynningum og er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Norðurlöndum. "Í vörulistanum okkar er einnig sérstakur bolur sem seldur er til styrktar Krabbameinsfélaginu."