miðvikudagur, febrúar 15

Fréttir af félagsstarfinu

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins Sigurvonar á norðanverðum Vestfjörðum var haldinn á Hótel Ísafirði 19. mars 2003. Kaffi og meðlæti var í boði Sparisjóðs Vestfjarða. Á fundinn mættu rúmlega tuttugu manns, en mikið var um að vera í bænum þetta kvöld. (Sjá nánar frétt hér fyrir neðan).

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var haldinn í byrjun febrúar og var þar rætt um að efla félagið sem mest, fjölga félögum og auka tengsl við nágrannabyggðarlögin. Einnig var ákveðið að ræða við stéttarfélögin á staðnum um greiðslu fyrir félaga á dvalarkostnaði í íbúðum í Reykjavík, sem ætlaðar eru fyrir sjúklinga og aðstendendur þeirra. Er það mál komið af stað.

Félagið hefur látið hanna fyrir sig merki, sem að mínu mati er mjög gott og er hannað af Hallvarði E. Aspelund og er gjöf til félagsins, til minningar um Hermann Skúlason tengdaföður sinn. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Snerpa ehf. á Ísafirði hefur veitt félaginu aðgang að netþjónustu endurgjaldslaust og ber það einnig að þakka. Netfangið er Sigurvon@snerpa.is

Bæjarins besta, BB, hefur veitt okkur mikinn stuðning og meðal annars gefið félaginu fríar auglýsingar o.fl.

Síðast og ekki síst vil ég þakka öllum félögum Sigurvonar fyrir stuðninginn, því ekkert félag getur verið til án félaga.

Með kveðju,
Sigurður Ólafsson, formaður Sigurvonar.

15. APRÍL 2003.