miðvikudagur, febrúar 15

Krabbameinsfélaginu Sigurvon berst stórgjöf

Ágóði afhenturSigurður Ólafsson afhendir Ólafíu Aradóttur gjaldkera Sigurvonar féð eftir að Gunnar Atli Gunnarsson hafði afhent honum ávísun upp á tæpa hálfa milljón króna. Mynd: bb.is

Á tónleikunum sem haldnir voru í Íþróttahúsinu á Ísafirði hinn 27. ágúst s.l. til styrktar Sigurvon söfnuðust 442.059.00 kr. Skipuleggjandi var Gunnar Atli Gunnarsson, 16 ára Ísfirðingur, og voru þeir honum og öllum þeim sem komu að tónleikunum til mikilla sóma.

Stjórn Sigurvonar vill koma þakklæti til allra þeirra sem að tónleikunum stóðu og gerðu þá svo eftirminnilega, allt það tónlistarfólk sem sótti okkur heim og heimamenn eiga miklar þakkir skilið og ekki síður þeir sem unnu við undirbúning að tónleikunum, en þess má geta að allir sem komu að tónleikunum gáfu sína vinnu og verður þessu fólki seint þakkað. Einnig ber að þakka öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu tónleikana, þó ber sérstaklega að þakka Gunnari Atla og hans fjölskyldu fyrir stórkostlegt framtak og alla þá hlýju til Sigurvonar, en þetta er í þriðja sinn sem Gunnar heldur tónleika til styrktar Sigurvon.

Þess má að lokum geta að peningarnir renna í styrktarsjóð Sigurvonar,sem styrkist mjög við þessa höfðinglegu gjöf.

Fyrir hönd stjórnar Krabbameinsfélagsins Sigurvonar

Sigurður Ólafsson formaður.

25. OKTÓBER 2005