miðvikudagur, febrúar 15

Súðvískar ungmeyjar styrkja Sigurvon

Tvær stúlkur í Súðavík, þær Sólveig Sigurjóna Gísladóttir og Anna Elísa Karlsdóttir, afhentu í gær Krabbameinsfélaginu Sigurvon á norðanverðum Vestfjörðum liðlega 17 þúsund króna styrk. Peningarnir eru afrakstur kökubasars sem þær héldu í þjónustumiðstöðinni í Súðavík. Sólveig Sigurjóna er á tólfta ári en Anna Elísa á því ellefta og basarinn var algerlega þeirra framtak. Þær sáu sjálfar um baksturinn að nokkru leyti en fengu að auki mömmur, ömmur og fleiri til að leggja til kökur. Eins og hjá mörgum í samfélaginu er málefnið þeim skylt. Sólveig missti afa sinn, Hermann Skúlason, úr krabbameini fyrir tæpum tveimur árum.

Sigurður Ólafsson og Ólafía Aradóttir frá Krabbameinsfélaginu Sigurvon tóku við gjöfinni í Súðavík í gær. Sigurður Ólafsson sagði geysigott að fá stuðning af þessu tagi. "Þær eru virkilega duglegar að styrkja félagið með þessum hætti og við kunnum þeim miklar þakkir fyrir. Það munar um minna. Þetta lýsir því hugarfari sem félagið okkar mætir í samfélaginu og við erum afskaplega þakklát fyrir", sagði Sigurður.

28. MAÍ 2003.