fimmtudagur, júlí 11

Facebook síða í fullum gangi !


Þessi heimasíða mun taka sér frí um tíma, en hægt er að nálgast allar upplýsingar um félagið á Facebook síðu Sigurvonar og þar er hægt að skrifa athugasemdir, senda fyrirspurnir og fylgjast með öllu sem er að gerast hjá félaginu :-)

fimmtudagur, mars 7

Mottumars 2013 - Verðlaun í boði !

Mottumars er árlegt árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands sem snýr að baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Á Íslandi greinast meira en sjöhundruð karlar ár hvert með krabbamein. Rannsóknir sýna að með forvörnum og heilbrigðu líferni er hægt að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur tilfellum. Í ár stendur Mottumars frá 1. til 21. mars. Á þeim tíma eru karlmenn hvattir til að sýna samstöðu og safna yfirvaraskeggi til að vekja athygli á málefninu.

Karlmenn eru jafnframt hvattir til að safna áheitum og skrá sig til leiks á vefsíðunni www.mottumars.is . Einstaklingar og lið geta skráð sig út frá búsetu og keppt þannig fyrir hönd síns byggðarlags. Þeir fjármunir sem safnast með átakinu gera Krabbameinsfélaginu kleift að sinna áfram forvörnum, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknum á krabbameinum karla.

 Krabbameinsfélagið Sigurvon hvetur vestfirska karlmenn til að leggja rakvélina til hliðar í marsmánuði og leggja þessu mikilvæga málefni lið með sýnilegum hætti. Jafnframt er mikilvægt að karlmenn ígrundi þann boðskap sem liggur að baki átakinu. Að þeir hugi að þeim áhrifum og ábyrgð sem þeir geta haft á eigin heilbrigði og vellíðan með heilsusamlegum lífsháttum, ásamt því að sýna árvekni gagnvart mögulegum einkennum sem geta fylgt krabbameinum og fari í reglulegar heilsufarsskoðanir hjá sínum heimilislækni.

 Allar nánari upplýsingar sem tengjast átakinu, einkennum krabbameina hjá körlum og forvörnum má finna á heimasíðunni www.mottumars.is Á meðan átakinu stendur mun bb.is í samvinnu við Krabbameinsfélagið Sigurvon flytja fréttir og birta myndir af gangi mála hjá vestfirskum mottumönnum. Eru gjörfulegir skeggsafnarar á svæðinu hér með beðnir um að senda okkur línu á netfangið sigurvon@snerpa.is .

Að átakinu loknu mun Sigurvon veita nokkrum glæsimönnum vegleg verðlaun.


 Fyrir hönd Krabbameinsfélagsins Sigurvonar Sigríður Ragna Jóhannsdóttir starfsmaður

föstudagur, desember 21

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár !


Krabbameinsfélagið Sigurvon óskar félagsmönnum sínum, sem og öllum landsmönnum nær og fjær gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og þakkar stuðninginn á liðnum árum !

fimmtudagur, október 25

Bleikt boð í Edinborg í kvöld !

Krabbameinsfélagið Sigurvon á Ísafirði býður í bleikt boð í Edinborgarhúsinu kl. 20:00 í kvöld í samstarfi við Edinborgarhúsið. Fluttur verður fyrirlestur um heilbrigðan lífsstíl, boðið upp á lifandi tónlist, sagðar reynslusögur þeirra sem glímt hafa við krabbamein og líka verður happdrætti. Einnig verður vestfirska fyrirtækið Villimey á staðnum og gefur gestum smyrsl úr lífrænum handtíndum íslenskum jurtum.
Kostar 1000 kr. inn og rennur aðgangseyrir óskiptur til Krabbameinsfélagsins Sigurvonar. Víða er lýst með bleiku ljósi á Ísafirði í október, meðal annars Safnahúsið, Sundhöllin, tré á Silfurtorgi og skrifstofa félagsins að Pollgötu 4. Hvetjum alla til að mæta tímanlega í kvöld !

föstudagur, september 21

Vinir í Von hefja vetrarstarf !

Vinir í Von ætla að hittast næsta laugardag eða 22. september kl. 11, boðið verður upp á kaffi og súpu og verður starf vetrarins undirbúið. Áætlað er að hittast 2. hvern laugardag í vetur og verður starfið fjölbreytt og skemmtilegt. Stefnan er að halda áfram með súpufundi, spilakvöld, göngutúra, kaffispjall o.fl. Hvetjum við sem flesta til að mæta n.k. laugardag kl. 11 í húsnæði Vesturafls að Mánagötu 6 og taka þátt í að móta starf vetrarins. Vetrarhittingar verða laugardagana  6/10, 20/10, 3/11, 17/11, 1/12 og 15/12 2012.  :o)

mánudagur, júní 25

Pétur Geir áritar ljóðabók sína Sólrúnir á kosningadaginn !

Laugardaginn 30. júní, kosningadaginn, mun Pétur Geir Helgason árita ljóðabók sína Sólrúnir í Vestfirsku Versluninni frá 12:00 -15:00, eða á meðan lager endist, bókin kostar 2.000 krónur. Einnig geta þeir, sem þegar hafa keypt bókina, fengið hana áritaða. Bókina tileinkar hann minningu eiginkonu sinnar Óskar Norðfjörð Óskarsdóttur sem lést í janúar 2008 en ánafnar Krabbameinsfélaginu Sigurvon hluta ágóðans. Pétur Geir fæddist 15. nóvember 1932 á Langeyri við Álftafjörð. Eftir gagnfræðaskóla hóf hann vinnu hin ýmsu störf sem til féllu en fljótlega hneigðist vilji til að vinna störf sem tengdust sjávarútvegi s.s. fiskvinnslu og sjómennsku og hefur svo verið mest allt lífshlaupið.

fimmtudagur, maí 31

Aðalfundur KÍ og "Samráðsfundur"

Samráðsfundur starfsmanna allra aðildarfélaga hittust föstudaginn 16. maí og funduðu og síðan var aðalfundur Krabbameinsfélagsins laugardaginn 17. maí. Miklar umræður urðu m.a. um velunnarakerfið og hafnaði aðalfundur því að neinar breytingar yrðu gerðar á því fyrirkomulagi strax. Var því ákveðið að nefndin myndi fara betur yfir stöðu mála og í meira samráði við aðildarfélögin áður en neinar breytingar yrðu gerðar. Sigurvon hefur verið með í sölu bókina Sólrúnir eftir ísfirðinginn Pétur Geir Helgason. Hann mun mæta á Ísafjörð seinni partinn í júní og árita ljóðabók sína og verður það auglýst nánar síðar. Starfsmaður Sigurvonar, Ingibjörg Snorra lætur af störfum í dag eftir ríflega 8 ára störf og biður hún fyrir bestu kveðjur til allra og þakkar gott og skemmtilegt samstarf. Hún mun verða félaginu innanhandar eftir þörfum næstu vikur og mánuði, eða þar til nýr starfsmaður hefur verið ráðinn.