miðvikudagur, október 28

Sölustaðir Bangsa KÍ á Ísafirði !

Bangsar KÍ fást í verslununum Konur og Menn, Blómabúðinni, Bensínstöðinni (N1) og Heitt á Prjónunum. Hægt er að hringja í Sigrúnu Baldurs 456 4044 og fá nánari upplýsingar :-)

Bangsar styrkja Krabbameinsfélagið !

Frá fimmtudegi til sunnudags stendur Friendtex fyrir landssölu á böngsum til styrktar leitarstarfi hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Fyrirtækið tekur nú þátt í baráttunni gegn krabbameini sjöunda árið í röð.

"Núna er fjögurra daga söluátak á Friendtex böngsunum og rennur allur ágóði af sölu þeirra óskiptur til Krabbameinsfélagsins," segir Ása Björk Sigurðardóttir, eigandi Friendtex á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfa 28 sjálfstætt starfandi sölufulltrúar sem staðsettir eru víðsvegar um land - allt frá Reykjavík til Vopnafjarðar. Þeir munu annast söluna ásamt öðrum velunnurum Krabbameinsfélagsins.

"Sölufulltrúar okkar verða áberandi um allt land og hafa fundið fyrir mikilli velvild og jákvæðni í garð verkefnisins. Á Höfn í Hornafirði ætla nokkrar konur til að mynda að ganga hús úr húsi og selja bangsana, svo það er ljóst að það er mikil stemming fyrir þessu átaki," segir Ása Björk. Friendtex sér um sölu á tískufatnaði í heimakynningum og er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Norðurlöndum. "Í vörulistanum okkar er einnig sérstakur bolur sem seldur er til styrktar Krabbameinsfélaginu."

mánudagur, október 26

Sigurvon gefur flatskjá !

Krabbameinsfélag Íslands rekur nokkrar íbúðir fyrir krabbameins sjúklinga, sem oft nýtast okkar félagsmönnum, þegar fara þarf í meðferðir til Reykjavíkur. Færði Sigurvon, Krabbameinsfélagi Íslands 32 tommu flatskjá að gjöf 19. okt. s.l. og var þessi mynd tekin við það tækifæri. Sigurður Ólafsson formaður Sigurvonar færði Steinunni Friðriksdóttur, umsjónarmanni íbúðanna gjöfina.

fimmtudagur, október 22

MÁLÞING UM BRJÓSTAKRABBAMEIN !

MÁLÞING UM BRJÓSTAKRABBAMEIN verður haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur þriðjudaginn 27. október 2009 kl. 19:30. Sjá nánar hér.

BLEIKA BOÐIÐ fer fram 23. október, en þá býður Krabbameinsfélagið til kvöldstundar á konukvöldi í Listasafni Reykjavíkur. Sjá nánar hér.

miðvikudagur, október 14

Bragð í baráttunni !

Út er komin bókin Bragð í baráttunni - matur sem vinnur gegn krabbameini. Bókin heitir á frummálinu Cooking with Food that fights Cancer og hefur vakið athygli víða um heim, enda er hér um tímamótarit að ræða. Bókin er gefin út af JPV útgáfu að frumkvæði Krabbameinsfélagsins Framfarar

Bókin, sem er aðgengileg, litrík og listilega hönnuð, hefur að geyma ítarlega umfjöllun um ýmis hráefni í matargerð sem talið er að geti unnið gegn myndun krabbameina. Þar eru einnig að finna yfir 160 gómsætar uppskriftir sem auðvelt er að fara eftir.

Heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, veitir fyrsta eintakinu viðtöku í útgáfuhófi bókarinnar nk. miðvikudag, 14. október kl. 14 í sal Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8. Allir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar....

þriðjudagur, október 13

Ný heimasíða Krabbameinsfélags Íslands !

Mynd tekin við opnun heimasíðunnar !Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra opnaði 8. október nýja og endurbætta heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands að viðstöddum stjórnendum og starfsfólki félagsins. Heimasíðan er mikilvægt tæki fyrir þá sem leita upplýsinga um krabbamein og sem þurfa að nýta sér þjónustu Krabbameinsfélagsins.

Með sama hætti og Krabbameinsfélagið vill vera í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn krabbameini á Íslandi vill félagið að heimasíða þess verði miðstöð þekkingar og upplýsinga um krabbamein.Þegar Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra opnaði síðuna sagðist hún sjálf hafa komið í leitarstöð félagsins nokkuð reglulega frá því að hún var 20 ára og þær heimsóknir hefðu skipt sköpum í hennar lífi. „ Ég hvet alla en þó sérstaklega ungar konur til að vera duglegar að kynna sér vefinn og að mæta reglulega í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Vefurinn er miðill unga fólksins, þess vegna vænti ég þess að nýr og viðmótsþýður vefur Krabbameinsfélagsins gagnist vel til að koma upplýsingum og fræðslu til nýrra kynslóða.“

Sjá meira hér !

Baráttumaður með bleika slaufu !


Hér er skemmtileg frétt af baráttumanni með bleika slaufu :-)

miðvikudagur, október 7

Bleika slaufan uppseld í heildsölu !

Tekið af vef BB - mbl.is 06.10.2009 11:59
"Salan á bleiku slaufunni hefur farið vel af stað það sem af er söfnunarátaki Krabbameinsfélags Íslands í ár. „Lagerinn hjá okkur kláraðist á mettíma, og vonumst við til að smásalan gangi að sama skapi vel,“ segir Gústaf Gústafsson, markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélagsins, í fréttatilkynningu. Markmiðið er að selja 45.000 slaufur og fer allur ágóði til styrktar leitarstarfi Krabbameinsfélagsins."

Á Ísafirði er hún m.a. seld í Pennanum-Eymundsson, Heilsugæslunni, Samkaupum, Lyfju og víðar, en í ár er hún eingöngu til sölu hjá ýmsum stærri fyrirtækjum og kostar 1.000 kr.
Hér má sjá frétt á BB í dag 8. okt. ´09.

föstudagur, október 2

Safnahúsið baðað bleiku ljósi !

bb.is 02.10.2009 11:24
Árveknisátak gegn brjóstakrabbameini er hafið ! Safnahúsið á Ísafirði verður baðað bleiku ljósi út október en mánuðurinn að vanda helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini um allan heim. Er það liður í alþjóðlegu árveknisátaki sem nú er hrint af stað tíunda árið í röð að frumkvæði Estée Lauder. Bleik slaufa er tákn átaksins og hófst sala á henni í gær en sjaldan hefur verið meiri þörf á að styðja við starfsemi Krabbameinsfélagsins en nú. Allur ágóði af sölu bleiku slaufunnar fer að þessu sinni til leitarstarfs Krabbameinsfélags Íslands. Slaufan í ár er hönnuð af Sif Jakobs, sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu fyrir skartgripahönnun sína, og veitti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fyrstu slaufunni viðtöku í gær.

Tíu ár eru frá því að árveknisátaki um brjóstakrabbamein var hleypt af stokkunum hérlendis með sölu á bleiku slaufunni og hefur það vaxið og dafnað með hverju árinu sem líður.

thelma@bb.is