föstudagur, september 30

Hvunndagshetjur með bleika slaufu !

Zulukonur - hvunndagshetjur !

Hvunndagshetjurnar
Lóa Ara og Júlía rafvirki !
Hvunndagshetjurnar Lóa Ara og Júlía rafvirki fengu fyrstu bleiku slaufurnar á Vestfjörðum í dag. Í ár verður Safnahúsið bleikt og hægt verður að kaupa bleiku slaufuna í Samkaupum, Pennanum, Apótekinu, Heilsugæslunni, hjá Birki og Lóu og á skrifstofu okkar að Pollgötu 4. Saga bleiku slaufunnar í ár er að fengnar voru konur í Suður Afríku til að perla slaufurnar og tilheyra þær þorpinu Zulufadder. Flestar konurnar eru ömmur og annast þær margar 12-14 börn hver,  því börnin hafa misst foreldra sína úr alnæmi. Í raun hefur heil kynslóð á þessu svæði horfið sökum sjúkdómsins. Með því að kaupa Bleiku slaufuna í ár er fólk því bæði að styrkja Krabbameinsfélag Íslands sem og Zulufadder þorpin og geta nú þessar konur brauðfætt betur þau börn sem eru í umsjá þeirra. Bleika slaufan er árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands sem snýr að baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

fimmtudagur, september 29

Pétur Geir gefur út ljóðabók !

Ísfirðingurinn Pétur Geir Helgason hefur gefið út ljóðabókina Sólrúnir. Bókina tileinkar hann minningu eiginkonu sinnar Óskar Norðfjörð Óskarsdóttur sem lést í janúar 2008 en ánafnar Krabbameinsfélaginu Sigurvon hluta ágóðans. Seld verða hundrað eintök á vegum félagsins sem fær helming af söluhagnaði. Pétur Geir fæddist 15. nóvember 1932 á Langeyri við Álftafjörð. Eftir gagnfræðaskóla hóf hann vinnu hin ýmsu störf sem til féllu en fljótlega hneigðist vilji til að vinna störf sem tengdust sjávarútvegi s.s. fiskvinnslu og sjómennsku og hefur svo verið mest allt lífshlaupið. Bókin er fáanleg hjá Sigurvon í síma 456 5650 eða hjá Sigurði Ólafssyni formanni félagsins í síma 897 5502.

Vinir í Von komnir á fullan skrið !

Vinir í Von komu saman síðasta laugardag hér að Pollgötunni, fengu sér kaffi og spjölluðu, síðan var lagt af stað í göngu í fiskisúpu í Tjöruhúsinu. Viljum við minna á skjalið hér til hægri á síðunni, "Vinir í Von", en þar má sjá þær dagsetningar sem komið er saman á laugardögum og eins hittinga á þriðjudagskvöldum, sem er yfirleitt fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Hvetjum við fólk til að vera duglegt að mæta hvort heldur það eru krabbameinsgreindir, aðstandendur eða styrktarfélagar. Maður er manns gaman :o)

þriðjudagur, september 6

Vinir í Von hefja vetrarstarf !

Vinir í Von ætla að hittast næsta laugardag eða 10. september kl. 11, boðið verður upp á kaffi og létt meðlæti og verður starf vetrarins undirbúið. Áætlað er að hittast 2. og 4ða hvern laugardag í vetur og verður starfið fjölbreytt og skemmtilegt. Stefnan er að halda áfram með súpufundi, spilakvöld, göngutúra, kaffispjall o.fl. Hvetjum við sem flesta til að mæta n.k. laugardag kl. 11 hér í aðstöðu Sigurvonar að Pollgötu 4 og taka þátt í að móta starf vetrarins. Vetrarhittingar verða laugardagana 10/9, 24/9, 8/10, 22/10, 12/11, 26/11, 10/12, 14/1, 28/1, 11/2, 25/2, 10/3, 24/3, 14/4, 28/4, 12/5 og 26/5. Spilakvöld verða fyrsta þriðjudag hvers mánaðar og koma nánari dagsetningar og upplýsingar hér eftir fundinn á laugardaginn :o)

Fín mæting í Göngum saman !

Góð mæting var í Göngum saman s.l. sunnudag, mættu um 40 göngugarpar, konur, karlar og börn. Haldið var af stað kl. 11 og gengnir ýmist 3 eða 7 km á Rúnustíg við Hnífsdalsveg í alveg ágætis veðri. Göngugarpar fengu svart buff við upphaf göngu og hressingu að göngu lokinni, snúða og vínarbrauð frá Gamla bakaríinu og drykki frá Vífilfelli. Þökkum við kærlega fyrir stuðninginn og þátttökuna ! Hér má sjá frétt um gönguna á BB

fimmtudagur, september 1

Göngum saman 4. september !


GÖNGUM SAMAN SUNNUDAGINN 4. september kl. 11:00 ! Gengið verður frá Gamla Sjúkrahúsinu og boðið upp á tvær gönguleiðir, 3 og 7 km. Fullorðið göngufólk er beðið að greiða 3.000 kr. í styrktarsjóð Göngum Saman. Frítt fyrir börn. Allir sem greiða göngugjaldið fá svart höfuðbuff með merki félagsins. Söfnunarféð rennur til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Í boði verða léttar veitingar að göngu lokinni og jafnframt  verður boðinn til sölu ýmiss varningur s.s. buff, armbönd, gjafakort og englar. Hvetjum sem flesta til að mæta !