fimmtudagur, mars 25

Tiltekt fyrir flutninga !

Mikil tiltekt hefur farið fram á skrifstofu Sigurvonar síðustu daga og eins og alltaf finnst eitthvað sem hefur hreinlega horfið tímabundið "neðst í bunkann". Kom í ljós myndadiskur sem sendur hafði verið vestur eftir Formannafund KÍ, sem haldinn var á Ísafirði í október 2007. Alltaf gaman að skoða "gamlar" myndir og látum við þær flakka hér. Smá galli er á uppsetningunni, en ýta þarf á myndina efst til vinstri til að koma myndasýningu í gang. Gott að ýta á F11 til að myndasýning fylli skjáinn í tölvunni. Til stendur að flytja skrifstofu Sigurvonar að Pollgötu 4 og eru framkvæmdir þar á fullu. Ekki er ljóst hvort næst að flytja fyrr en eftir páska, en við látum vita þegar allt brestur á. Nú er Sigurvon komin á Facebook og tilvalið að gerast meðlimur í þeim hópi svo hægt sé að fylgjast með nýjustu fréttum :-)

þriðjudagur, mars 23

Ríkisstjórnin bannar notkun ljósabekkja !

Þessa frétt mátti lesa í DV í dag og er þetta ánægjulegt skref í baráttunni við húðkrabbamein !
-----------------------------
Þriðjudagur 23. mars 2010 kl 15:21
Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

Ríkisstjórn samþykkti í dag tillögu Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra um bann við ljósabekkjanotkun einstaklinga undir 18 ára aldri. Verður frumvarpið lagt fyrir Alþingi eftir kynningu í þingflokkum. Með samþykkt frumvarpsins yrði Ísland eftir því sem næst verður komist fyrst Norðurlandanna til að innleiða slíkar reglur. Í Finnlandi er ráðgert að leggja sambærilegt frumvarp fram á haustþingi.
Undanfarin sjö ár hafa fagaðilar staðið fyrir fræðsluherferð þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Hefur herferðin beinst að fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra og hefur dregið verulega úr ljósabekkjanotkun ungs fólks síðan herferðin hófst. Í viðhorfskönnun, sem Capacent-Gallup gerði fyrir Lýðheilsustöð í desember 2009, sögðust rúm 72 prósent aðspurðra vera fylgjandi lagasetningu um bann 18 ára og yngri við notkun á ljósabekkjum.
Tillagan nýtur eindregins stuðnings starfshóps um útfjólubláa geislun, sem auk fulltrúa Geislavarna ríkisins er skipaður fulltrúa Krabbameinsfélagsins, landlæknis, Lýðheilsustöðvar og Félags húðlækna.

Mottumars í fullum gangi !

Mottumars er enn í fullum gangi og gaman að sjá hve margir vestfirskir karlmenn hafa bæst í hópinn, verður spennandi að fylgjast með og ljóst að margar mottur fjúka 1. apríl :-D
Frétt hér að neðan er af vef bb.is
-------------------
bb.is 22.03.2010 09:32
Önfirsk motta slær í gegn
Önfirðingurinn Hinrik Greipsson er í fimmta sæti í mottukeppni Krabbameinsfélags Íslands en hann hefur safnað alls 154.493 krónum síðan átakið hófst. Aðeins munar rúmum 2.000 krónum á fimmta og fjórða sætinu. Hinrik var síðast með skegg árið 1976 en ætlar að láta mottuna fjúka 1. apríl á þessu ári. Efstur í einstaklingskeppninni er Reykvíkingurinn Rúnar Sigurðsson sem hefur safnað 283.960 krónum þegar þessi orð eru skrifuð. Markmið með átakinu er að vekja karlmenn til vitundar um krabbamein og auka bæði samstöðu þeirra og umræðu og í ár vill Krabbameinsfélagið vekja keppnis- og baráttuandann í brjósti karla og rjúfa þögnina um krabbamein karla. Eins og greint var frá á dögunum er fjölmargir vestfirðingar meðal þátttakenda í keppninni. Myndir af keppendum og upplýsingar um framgang þeirra í keppninni má finna á vef átaksins. Þar er einnig hægt að heita á þá menn sem maður vill styðja. kristjan@bb.is

mánudagur, mars 15

Frábærir tónleikar Fjallabræðra

Tekið af vef bb.is
„Tónleikarnir voru frábærir, það var mikið fjör og mikið gaman,“ segir Sigurður Ólafsson, formaður Krabbameinsfélagsins Sigurvonar á norðanverðum Vestfjörðum um styrktartónleika vestfirska karlakórsins Fjallabræðra sem fóru fram í íþróttahúsinu á Flateyri á laugardag. Sigurður segist telja að hátt í 300 manns hafi sótt tónleikana. „Við erum ekki búin að taka það nákvæmlega saman en ég held að það hafi verið eitthvað á bilinu 250 til 300 manns í húsinu.“ Ágóði tónleikanna rann til styrktar Sigurvonar og segir Sigurður að slíkur stuðningur sé ómetanlegur. „Það gefur þessu mikið gildi og það ber að þakka þeim Fjallabræðrum ærlega fyrir og eins eiga skilið þakklæti allir þeir sem komu að tónleikunum, en fullt af fyrirtækjum lögðu hönd á plóg.“ Sigurður segir mikla stemmningu hafa verið í húsinu. „Ég hef ekki heyrt annað en að fólk hafi skemmt sér vel. Kórfélagarnir voru allavega mjög ánægðir og skemmtu sér vel uppi á sviðinu.“ Athygli vakti að fiðluleikari kórsins og eina konan, Unnur Birna Björnsdóttir, var fjarverandi og í hennar stað hafði verið stillt upp á sviðinu pappamynd af henni í fullri stærð. „Hún veiktist og komst ekki og því ákváðu þeir að skella upp mynd af henni til að hafa ásýnd hennar hjá sér á sviðinu. Magnús Þór Sigmundsson var einnig fjarverandi, þó að hann hefði gjarnan viljað koma, en hann hafði lofað fyrir löngu að syngja fyrir íþróttafélag í Hveragerði sem hann var í þegar hann var lítill gutti,“ segir Sigurður. thelma@bb.is

fimmtudagur, mars 4

Viðburðir framundan !

Blettadagur föstudaginn 5. mars milli 14:00 og 16:00 !

Vinir í Von funda 6. mars frá 11:00 - 13:00 !

Pinnasala Karlar og krabbamein 6. og 7. mars !

Styrktartónleikar m/Fjallabræðrum 13. mars kl. 20:00 í íþróttahúsinu á Flateyri !
Forsala aðgöngumiða á tónleikana er hafin og er hægt að nálgast miða á Ísafirði hjá Birki ehf. og í Bókahorninu í Neista og á Flateyri hjá N1 !

þriðjudagur, mars 2

Mottu-mars - Allir karlar að skrá sig !

Hafin er samkeppni á landsvísu í söfnun yfirvaraskeggs í tilefni af átakinu Karlar og Krabbamein. Hvetjum við Vestfirska karlmenn til að láta ekki sitt eftir liggja og hefja söfnun á mottu nú þegar :-D Frekari upplýsingar um keppni, skráningu og fyrirkomulag má finna hér. Nokkrir hafa verið iðnir undanfarna daga og eru Karlaklúbbar, íþróttafélög og kórar í viðbragðsstöðu víða um landið og tilbúnir að vakta ákveðna sölustaði um næstu helgi, eða selja innbyrðis í virka karlahópa ! Okkur vantar sjálfboðaliða n.k. laugardag til að selja pinnan og hvetjum áhugasama til að hafa samband við Ingibjörgu Snorra í síma 867 7942.

Ungt fólk varað við ljósabekkjanotkun !

Nú er að hefjast átak sem beinist að fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Vakin er athygli á því að börn og unglingar séu næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum og sól. Tíðni húðkrabbameins hefur aukist mikið á síðustu áratugum, einkum tíðni svonefndra sortuæxla, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameins og algengasta tegund krabbameins hjá konum á aldrinum frá 15 til 34 ára. Foreldrar og aðrir forráðamenn fermingarbarna eru hvattir til að fara að tilmælum alþjóðastofnana um að börn og unglingar fari ekki í ljósabekki. Nýlega hafa verið settar fram tillögur á norrænum vettvangi um að banna þeim sem eru yngri en átján ára að fara í ljós. Slíkt bann hefur þegar tekið gildi í nokkrum löndum, m.a. í Skotlandi.

Í kjölfar fræðsluherferðanna síðustu ár hefur dregið úr ljósabekkjanotkun ungs fólks og nokkrar sveitarstjórnir hafa hætt að bjóða upp á sólböð í ljósabekkjum í íþróttamannvirkjum sínum. Með herferðinni er stefnt að því að draga enn frekar úr ljósabekkjanotkuninni. Leitað verður til presta landsins um að leggja málefninu lið, eins og undanfarin ár.

Þetta er sjöunda árið sem farið er í fræðsluherferð undir slagorðinu „Hættan er ljós“. Skilaboðin eru frá Félagi íslenskra húðlækna, Geislavörnum ríkisins, Krabbameinsfélaginu, Landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð. Birtar verða auglýsingar í dagblöðum og á vefsíðum, m.a. Facebook, og fjallað um málið í fjölmiðlum.