„Á allra vörum“ er yfirskrift átaks til að safna fé til að kaupa nýjan stafrænan röntgenbúnað sem greinir brjóstakrabbamein betur en hægt hefur verið fram að þessu.
Fjármunum verður safnað með því að selja bleikt varalitargloss frá Yves Saint Laurent merkt átakinu. Hvert gloss kostar 2.000 krónur en allur ágóði af sölunni rennur til styrktar Krabbameinsfélaginu. Átakið hófst formlega í húsnæði
Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð þegar tíu þjóðþekktar konur fengu fyrstu glossin afhent.
Nýr tækjabúnaður leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins eykur möguleika á að greina krabbamein í brjóstum á frumstigi en góður árangur í meðferð þess ræðst ekki síst af því að það greinist sem allra fyrst. Auk tækjakaupanna er markmið átaksins að leggja Krabbameinsfélaginu lið við að koma nýjum tækjum sem fyrst í gagnið og upplýsa, með ýmiss konar kynningarefni, hve alvarlegur sjúkdómur brjóstakrabbamein er.
Að tíu konur taki við fyrstu varalitaglossunum er táknrænt fyrir það að tíunda hver kona hér á landi greinist með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni. Glossin verða til sölu næstu fjóra mánuði um borð í flugvélum Icelandair og í fríhafnarverslunum Flugfélags Íslands í Reykjavík og á Akureyri. Glossin verða einnig seld fyrirtækjum sem vilja styrkja átakið með því að kaupa þau handa starfsfólki sínu.
„Það er ánægjulegt að finna þá jákvæðni og gleði sem einkennir þetta sjálfsprottna fjáröflunarátak. Við metum mikils þann samhug og kraft sem beinir velvilja að því mikilvæga verkefni sem bætt leit að brjóstakrabbameini er,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Styrktaraðilar átaksins „Á allra vörum“ eru Heildverslun Halldórs Jónssonar, Saga Boutique og Flugfélag Íslands.