þriðjudagur, apríl 29

Orlofsdvöl að Löngumýri 2008 !

Slökun að Löngumýri !Eins og sumum ykkar er kunnugt hóf Fræðslusetur kirkjunnar á Löngumýri í samstarfi við Krabbameinsfélag Skagafjarðar og stuðningshópinn Dug að bjóða til hvíldardvalar hér fyrir norðan, fólki sem greinst hefur með krabbamein og er á milli meðferða eða í uppbyggingarferli. Einnig eru þeir sem unnið hafa mikið sjálfboðastarf í þessum málaflokki velkomnir.
Fyrsta skrefið var stigið árið 2005 og eftir vel heppnaðar dvalir krabbameinssjúklinga og í mörgum tilvikum maka þeirra eða aðstandenda liðin sumur, þá er ljóst að þörfin fyrir hvíldardvöl af þessum toga er til staðar. Á sumri komandi verður því framhald á og verða í boði 3 tímabil. Í júlí 4. – 8. og 28. júlí – 1. ágúst. Síðasta tímabilið er svo eftir verslunnarmannahelgi 4.-8. ágúst.
Dagskráin er einföld. Lögð er áhersla á góðan mat, hreyfingu við hæfi, fræðsluerindi, helgistundir, kvöldvökur, en umfram allt jákvætt andúmsloft og viðmót. Farið er í eitt ferðalag um Skagafjörð eða nágrenni. Sigurvon greiðir dvalarkostnað fyrir sína félagsmenn og hvetjum við félaga til að nýta sér þetta tækifæri. Hér er pláss fyrir allt að 30 manns í 17 herbergjum. Heitir pottar, kapella, hlýleg setustofa og rúmgóður matsalur.

Fyrir þá sem setja akstur út á land fyrir sig þá gengur áætlun Hópferðamiðstöðvarinnar alla daga og ekur fólki hingað heim í hlað fyrir eitt orð.

Vonandi vekur þetta áhuga ykkar og ekki hika við að hafa samband við undirritaðan vegna frekari upplýsinga, eða hringið í Sigurvon í síma 456 5650.

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson
Löngumýri
453 8116
861-9804

miðvikudagur, apríl 9

Blettadagur föstudaginn 18. apríl !!!

Blettadagur !Krabbameinsfélagið Sigurvon verður með Blettadag föstudaginn 18. apríl n.k. í samvinnu við Heilsugæslustöðina og Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. Blettaskoðun verður í boði fyrir alla sem þess óska og verða læknarnir Fjölnir Guðmundsson og Þorsteinn Jóhannesson við þennan dag, milli kl. 13:00 og 15:00. Fólk er hvatt til að notfæra sér þá þjónustu að láta lækna ákveða hvort ástæða sé til að fjarlægja fæðingarbletti eða aðra bletti. Ekki þarf neinar tímapantanir
Hvetjum við fólk eindregið að nýta þessa fríu þjónustu

Sigurvon

þriðjudagur, apríl 1

Ráðgjafarþjónusta

Ráðgjafarþjónusta !• Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er ætluð þér sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þínum.
• Tilgangurinn er að vinna með þér til að þú náir jafnvægi í lífinu við þær breyttu aðstæður sem krabbameinsgreining veldur.
• Þú átt kost á því að hitta hjúkrunarfræðing, félagsráðgjafa, fleiri fagaðila eða aðra sem hafa gengið í gegnum svipaða reynslu og þú.
• Boðið er upp á viðtöl, faglega ráðgjöf, sjálfshjálparhópa, námskeið, hagnýtar upplýsingar, aðgang að tölvum og prentara, heimilislegt húsnæði og hressingu.
• Ráðgjafarþjónustan er í húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8, fyrstu hæð. Opið kl. 9-16.30 virka daga. Auk þess eru fundir og námskeið á daginn, á kvöldin og um helgar.

• Símar: 5401916 , 5401912 eða 5401900
• Gjaldlaus símaráðgjöf og símsvari: 8004040
• Heimasíða: http://www.krabb.is/rad
• Tölvupóstur: 8004040 @krabb.is

• Nánari upplýsingar veita Ragnheiður Alfreðsdóttir hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður þjónustunnar (sími 540 1916 , netfang ragnalf@krabb.is) og Gunnjóna Unu Guðmundsdóttur félagsráðgjafi (sími 540 1912 , netfang una@krabb.is).

Hagnýtar upplýsingar (pdf-skjal, 25 bls., janúar 2008).
Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins (upplýsingarit, doc)

Varað við ljósabekkjanotkun fermingarbarna !

Hættan er ljós !Nú er að hefjast átak sem beinist að fermingarbörnum og foreldrum eða forráðamönnum þeirra þar sem bent er á hættuna sem fylgir því að ungt fólk fari í ljósabekki. Skilaboðin eru frá Félagi íslenskra húðlækna, Geislavörnum ríkisins, Krabbameinsfélaginu, Landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð. Þetta er fimmta árið sem þessir aðilar standa saman að fræðsluherferð undir slagorðinu "Hættan er ljós".
Vakin er athygli á því að börn og unglingar séu næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum og sól. Tíðni húðkrabbameins hefur aukist mikið á síðustu árum, einkum tíðni svonefndra sortuæxla, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameins og algengasta tegund krabbameins hjá konum á aldrinum frá 15 til 34 ára. Foreldrar og forráðamenn fermingarbarna eru hvattir til að hafa í huga tilmæli alþjóðastofnana um að börn og unglingar fari ekki í ljósabekki. Leitað verður til presta landsins um að leggja málefninu lið, eins og undanfarin ár.
Í kjölfar fræðsluherferðanna síðustu ár hefur dregið úr ljósabekkjanotkun ungs fólks og nokkrar sveitarstjórnir hafa hætt að bjóða upp á sólböð í ljósabekkjum í íþróttamannvirkjum sínum. Með herferðinni nú er stefnt að því að draga enn frekar úr ljósabekkjanotkuninni með því að minna á hættuna.
Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins greinast að meðaltali um 50 manns á ári með sortuæxli í húð, rúmlega 50 með önnur húðæxli og um 220 manns með svonefnd grunnfrumuæxli í húð. Tíðni húðæxla í heild hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum. Ár hvert deyja að meðaltali átta Íslendingar úr sortuæxlum í húð.