laugardagur, nóvember 28
Vinir í Von komu saman í morgun og gerðu ýmist hurðakransa eða aðventukransa. Kolbrún Smith leiddi hópinn og voru gerðir margir flottir kransar. Boðið var upp á kaffi, heitt súkkulaði og smákökur. Mikið var spjallað og góð mæting. Næst koma Vinir í Von saman laugardaginn 12. desember kl. 11 og er mæting á sama stað og áður, eða að Mánagötu 6, í húsnæði Vesturafls. Dagskrá verður auglýst nánar fljótlega.
miðvikudagur, nóvember 25
Jólakortin komin í sölu !
Jólakortin eru nú óðum að detta inn í verslanir og eru nú þegar fáanleg í Húsasmiðjunni, Blómabúðinni, Birki ehf., Bensínstöðinni N1, Hafnarbúðinni, Bókahorninu, Heilsugæslustöðinni, Hlíf, Samkaup / Úrval Bolungarvík og á Hólmavík.
Vinir í von munu funda n.k. laugardag kl. 11 að Mánagötu 6, í aðstöðu Vesturafls og verður kennd gerð Hurðakransa. Hvetjum félaga til að mæta !
fimmtudagur, nóvember 19
Vinir í Von funda !
Vinir í Von komu saman á fyrsta fundi vetrarins þ. 16. nóv. s.l. og var fundurinn haldinn að Mánagötu 6 í aðstöðu Vesturafls. Góð mæting var og er vetrarplan óðum að mótast. Ákveðið var að fundir yrðu hálfsmánaðarlega, á laugardögum kl. 11. Næsti fundur er því laugardaginn 28. nóvember kl. 11:00. Mæting verður áfram á sama stað, eða Mánagötu 6, húsnæði Vesturafls. Ýmislegt verður í boði á þessum fundum, s.s. námskeið, handverk ýmiskonar, fyrirlestrar, spjall, göngur, meðlæti, súpur o.s.frv. Laugardaginn 28. nóvember er stefnan að halda námskeið í gerð Hurðakransa og laugardaginn 12. desember verður kynning á Húllahringjum, eru félagar hvattir til að mæta.
föstudagur, nóvember 13
Aðalfundur Sigurvonar 2009 !
Aðalfundur Sigurvonar gekk vel í gær. Engar miklar breytingar voru gerðar og var formaðurinn, Sigurður Ólafsson endurkjörinn með lófataki. Eins var með aðra meðstjórnendur, þær Ólafíu Aradóttur, Oddný Birgisdóttur, Auði Ólafsdóttur og Heiðrúnu Björnsdóttur. Varamaður til fjölda ára, Sigríður Ragnarsdóttir gaf ekki kost á sér og kom nýr varamaður inn, Helena Hrund Jónsdóttir, en hún og Jóhanna Ása á Hólmavík, voru kjörnar með lófataki. Vill félagið þakka Sigríði Ragnarsdóttur óeigingjarnt starf á liðnum árum og óskar henni velgengni til framtíðar. Ákveðið var að árgjöld yrðu þau sömu, eða 2.000 kr. Skoðendur reikninga voru einnig endurkjörnir, aðalmenn Sólveig Gísladóttir og Sigurður Þórðarson og til vara Hreinn Pálsson. Vinir í von fengu nýja stuðningsaðila, en Guðfinna Sigurjónsdóttir, Auður Ólafsdóttir og Heiðrún Björnsdóttir munu blása lífi í starf stuðningshópsins og er fyrsti fundur Vina í von þennan veturinn n.k. mánudagskvöld kl. 20:00 í húsnæði Vesturafls, sem er staðsett í Mánagötu á milli Snerpu og Hjálpræðishersins.
þriðjudagur, nóvember 10
Jólakort Sigurvonar 2009 !
bb.is 10.11.2009 16:13
Myndir Ágústar prýða jólakort Sigurvonar
Tvö ný jólakort Krabbameinsfélagsins Sigurvonar á norðanverðum Vestfjörðum eru komin í prentun. Að þessu sinni eru þau prýdd myndum áhugaljósmyndarans Ágústar G. Atlasonar. Ágúst segist vilja styrkja gott málefni og gefur því félaginu myndirnar. Hann hefur verið öflugur í ljósmyndun undanfarin misseri og haldið víða sýningar. Hann hefur fengist við ljósmyndun síðan 1990. Einstakt landslag Vestfjarða er vinsælt myndefni hjá Ágústi og þarf engan að undra það miðað við fegurðina á meðfylgjandi mynd sem prýðir annað jólakort Sigurvonar. Jólakortin koma í sölu von bráðar en ágóðinn rennur í styrktarsjóð Sigurvonar.
Þess má geta að aðalfundur Sigurvonar fer fram á Hótel Ísafirði kl. 20:30 á fimmtudag. Fara þá fram hefðbundin aðalfundarstörf.
Tekið af vef BB.is